Ný vísindagrein um árstíðabundinn breytileika í magni kvikasilfurs í sjófuglum á norðurslóðum

Starfsmenn Náttúrustofunnar eru meðal höfunda að nýrri vísindagrein um árstíðabundinn breytileika í magni kvikasilfurs í sjófuglum á norðurslóðum, sem kom út á rafrænu formi í vísindaritinu Science of The Total Environment nú í vikunni. Um er að ræða alþjóðlega rannsókn sem leidd var af vísindamönnum á rannsóknarstofu háskólans í La Rochelle og CNRS í Frakklandi …

Ný vísindagrein um árstíðabundinn breytileika í magni kvikasilfurs í sjófuglum á norðurslóðum Read More »

Umhverfisvottun Vestfjarða

Um þessar mundir eru liðin 10 ár frá því að samþykkt var á Fjórðungsþingi að fara í umhverfisvottun sveitarfélaganna á Vestfjörðum. Í upphafi sá Lína Björk Tryggvadóttir um að halda utan um þá vinnu sem þarf að leggja í stefnumótun, gagnaöflun, fræðslu og fjármögnun á sérverkefnum.

Frá árinu 2018 hefur María Hildur Maack hjá NAVE verið verkefnastjóri umhverfisvottunarinnar í 33% starfi. Til að hljóta umhverfisvottun hjá EARTH CHECK (sem er eina umhverfisvottunarþjónustan sem býður úttektir og vottun fyrir sveitarfélög) þarf að sýna áhuga með því að setja fram stefnu og framkvæmdaáætlun.  Þessu er fylgt eftir með visthæfari innkaupum, sparnað í vatns-orku og pappírsnotkun, verja hluta tekna til náttúruverndar og félagsþjónustu og fleira og fleira. Í umhverfisvottuninni er byggt á öllum stoðum sjálfbærrar þróunar: Umhverfisvernd, heilbrigðu hagkerfi (hringhagkerfi og verslun í heimabyggð) og félagslegu jafnræði (til dæmis að karlar og konur fái svipuð völd, hljóti sivpaða þjónustu, börn lifi við öryggi og aldraðir séu ekki afskiptir. Sveitarféögin þurfa að sýna fram á (með tölulegum gildum) að þeim fari fram ár frá ári. Til dæmis að sorpumfang minnki, meiri flokkun eigi sér stað, að eldsneyti sé sparað og að ekki séu notuð eiturefni t.d. á skordýr eða illgresi. Árið 2020 fékkst síðast umhverfisvottun og mega allir starfsmenn sveitarfélaganna nota sérstaka undirskrift til að sýna umhverfisvottun sveitarfélagsins. Hér má skoða framkvæmdaáætlun fyrir árin 2020-2025, en hún er endurskoðuð árlega. 

Fornleifarannsóknir í Arnarfirði 2020

Í ágúst var haldið áfram með fornleifarannsóknina Arnarfjörður á miðöldum fyrir styrki eins og greint var frá í vor. Við rannsóknina unnu fornleifafræðingarnir Margrét Hrönn Hallmundsdóttir, Kristín Sylvía Ragnarsdóttir, Gunnar Grímsson, James McGovern, Kate Fitzpatrick og Jonathan Buttery auk aðstoðar frá Herdísi Friðriksdóttur.

Þetta árið var lögð áhersla á ósvaraðar spurningar, ljúka vinnu við skálann á Auðkúlu, rannsaka tóft rétt sunnan við skálann, staðsetja líklegan skála í túninu á Hrafnseyri og kortleggja öll ummerki fornleifa í Arnarfirði með drónamyndum og hitamyndavél.

Allt svæðið var fyrst opnað og hreinsað. Við uppgröftinn komu í ljós margar stoðarholur, bæði innan skála og utan. Að innan fundust þær undir gólflaginu sem var tekið upp árið 2019. Stoðarholurnar segja til um það hvernig þakinu var haldið uppi. Stoðarholur sem fundust utan skála voru líklega eftir stoðir til að styrkja veggi. Veggir skálans voru gerðir greinilegri og líklegur eldri inngangur fannst þar sem op inn í viðbygginguna er staðsett nú. Lokið var við að grafa upp skálann og gengið var frá honum með torfi á veggjum.

Rétt sunnan við skálann var grafið upp jarðhýsi. Í því var stór steinhlaðinn ofn sem var alsettur eldsprungnum steinum og kolum, gólflag var í húsinu og var það þéttast við miðju. Stoðarholur var einnig að finna við suðurvegg og ein við norðurvegg en þar voru einnig nýttir stoðasteinar. Jarðhýsið var grafið upp að fullu og því lokað í enda sumars með torfi á veggjum.

Borkjarnarannsóknir frá árinu 2019 leiddu í ljós að einhverskonar mannvirki væri að finna í túninu neðan við kirkjuna á Hrafnseyri. Tveir könnunarskurðir voru grafnir til að kanna hverskonar mannvirki þetta gætu verið. Uppgröftur sýndi að þar væri að finna stóran skála. Skálinn fannst nokkrum metrum frá öskuhaug  og jarðhýsi sem hafði verið grafið þar áður. Í könnunarskurðunum kom í ljós stór og þykkur veggur og svart gólflag. Skálinn er að öllum líkindum mjög stór því gólfið sást í báðum skurðum. Skálinn er því að minnsta kosti 17 metra langur.

Myndataka með dróna og hitamyndavél voru notaðar við kortlagningu fornleifanna í Arnarfirði. Námsmaður á nýsköpunarstyrk (sjá fyrri frétt), Gunnar Grímsson staðsetti áður þekktar og óþekktar minjar sem sjást illa á yfirborðinu. Með drónanum var einnig búið til þrívíddarlíkan af uppgraftarsvæðinu á Auðkúlu.

Segja má að þessi rannsókn hafi leitt í ljós miklar mannvistarleifar af fjölbreyttu tagi. 

 

Smáhveli rak á fjöru í Hænuvík

Helstu einkenni grindhvalsins sjást ekki vel af þessum myndum, lengdin er óskilgreind og talsverðir áverkar eru sjáanlegir á búknum. Ennið er kúpt, hvalurinn dökkur yfirlitum og það sést vel í nokkrar smáar tennur en hræið líkist mest grindhval. Bægsli á kvið grindhvala geta verið um 1/3 af lengd dýrsins. Bakhornið sést ekki. Ljós blettur framan við kviðlæg bægsli er heldur ekki auðsjánlegur. Latneska heitið á grindhval er Globicephala melas sem þýðir svo sem hinn dökki kúluhaus. Ennið nota hvalirnir til að nema hljóð og greina það. Hauskúpan er af þessum sökum ósamhverf. Þeir senda frá sér alls kyns hljóð og nema bergmálið til að staðsetja bráð. Þeir lifa á smokkfiski, fiski og öðrum sjávardýrum. Vanalega fara grindhvalir margir saman í vöðum og er algengt að sjá þá inni á fjörðum eða utar í kringum landið vaða ölduna. 

Í Hænuvík við Patreksfjörð rak smáhveli

Helstu einkenni grindhvalsins sjást ekki vel af þessum myndum, lengdin er óskilgreind og talsverðir áverkar eru sjáanlegir á búknum. Ennið er kúpt, hvalurinn dökkur yfirlitum og það sést vel í nokkrar smáar tennur. Þetta líkist mest grindhval. Bægsli á kvið grindhvala geta verið um 1/3 af lengd dýrsins. Bakhornið sést ekki. Ljós blettur framan við kviðlæg bægsli er heldur ekki auðsjánlegur. Latneska heitið á grindhval er Globicephala melas sem þýðir svo sem hinn dökki kúluhaus. Ennið nota hvalirnir til að nema hljóð og greina það. Hauskúpan er af þessum sökum ósamhverf. Þeir senda frá sér alls kyns hljóð og nema bergmálið til að staðsetja bráð. Þeir lifa á smokkfiski, fiski og öðrum sjávardýrum. Vanalega fara grindhvalir margir saman í vöðum og er algengt að sjá þá inni á fjörðum eða utar í kringum landið vaða ölduna. 


Samtök náttúrustofu | kt 660802 2580 | netfang: sns (hjá) sns.is | Póstur skal berast til formanns hverju sinni