Haustið 2019 hófst fuglamerkingarverkefni á vegum Fræðaseturs Háskóla Íslands sem snýr að ferðum og dreifingu íslenskra snjótittlinga. Snjótittlingar eru veiddir og á fætur þeirra settur rauður plasthringur með hvítum einkennisstöfum, auk hefðbundins álhrings. Tveir starfsmenn Náttúrustofunnar eru þátttakendur í þessu rannsóknarverkefni og annar þeirra merkti snjótittling sem hefur fengið viðurnefnið „Þingeyski hálandahöfðinginn“. Þessi tiltekni sjótittlingur var fyrst merktur við Víkingavatn í Kelduhverfi 3. apríl 2020 og hefur sést árlega frá 2022 á skíðasvæði í Cairngorms fjöllunum í Skosku hálöndunum.
Náttúrustofa Norðausturlands hefur vaktað plastmengun í sjó fyrir Umhverfisstofnun frá 2018. Vöktunin fer fram með athugunum á plastinnihaldi í meltingarfærum fýla (Fulmarus glacialis).Plast getur sært eða stíflað meltingarfæri fugla en getur líka haft óbein áhrif m.a. vegna upptöku ýmissa óæskilegra efna sem eru í plastinu sjálfu eða sogast að plastögnunum úr umhverfinu og fuglar taka svo upp í vefi sína.
Náttúrustofan hefur talið vatnafugla á helstu votlendissvæðum á láglendi Þingeyjarsýslna utan Mývatnssveitar frá 2004. Auk talninga á fullorðnum fuglum að vori hafa ungar og fullorðnir fuglar, með áherslu á kafendur, verið taldir á ungatíma seinni hluta sumars á sömu svæðum frá 2008. Nánari lýsingar á aðferðafræði og niðurstöðum má finna í skýrslu NNA „Ástand fuglastofna í Þingeyjarsýslum 2021-2023“ undir útgefið efni á heimasíðu nna.is. Skýrslan er uppfærð á þriggja ára fresti