Það er alltaf spennandi að sjá merkta fugla. Í júní sl. sá starfsmaður Náttúrustofunnar litmerktan jaðrakan (Limosa limosa) við Tjarnarland í Hjaltastaðaþinghá. Í ljós kom að hann hafði verið merktur í Bangor Harbour í Wales þann 28.janúar 2024 ásamt fleiri fuglum. Að sögn merkjanda var þetta fyrsta tilkynningin frá Íslandi, um fuglana sem þeir merktu. Jaðrakaninn stoppaði þó ekki lengi hér og var strax í lok júlí komin aftur til Bretlands, en hann sást þá í Cheshire, ríflega 100 km frá merkingarstað.
Jaðrakanar hafa breiðst mjög um landið undanfarna áratugi. Þeir eru láglendisfuglar sem verpa einkum í votlendi og sækja mikið í graslendi. Eins og kemur fram í ársskýrslu Náttúrustofu a Austurlands frá 2023 hefur verið fylgst með þéttleika jaðrakans í mófuglatalningum á nokkrum stöðum á Héraði um áratugaskeið. Að meðaltali sáust 11 fuglar á ferkílómeter (m.v. lágmarksþéttleika) á tímabilinu 2009-2023 á öllum svæðum, minnst 6 fuglar og mest 17 fuglar. Þéttleiki hefur minnkað marktækt á tímabilinu.
Nánar má lesa um jaðrakana á vef Náttúrufræðistofnunar.
Á dögunum birtum við fjögur viðtöl á YouTube rás stofunnar sem Snævarr Guðmundsson og Kristín Hermannsdóttir tóku við eldri konur úr Skaftafellssýslum á árunum 2020 og 2021. Rætt var við: Elínborgu Pálsdóttur, fædd á Böðvarshólum í Vesturhópi 3. september 1923, en flutti síðar á Höfn. Viðtalið er tekið 3. september 2021 Höllu Bjarnadóttur, fædd á […]
The post Fortíðarsamtal fyrir framtíðina appeared first on Nattsa.is.
Á dögunum barst Náttúrustofunni tilkynning um kóngasvarma (Agrius convolvuli ) sem fannst á Djúpavogi. Kóngasvarminn er gríðarstórt fiðrildi (a.m.k. á íslenskan mælikvarða) sem berst hingað árlega frá Suður-Evrópu, einkum á þessum tíma árs.
Erling Ólafsson skordýrafræðingur hefur hvatt þá sem eiga blómstrandi og ilmandi skógartopp í garði sínum að hafa augun sérstaklega opin, fara út í kvöldmyrkrinu og kanna hvort kóngasvarmar leynist þar: “svermandi kyrrstæðir í loftinu með langan sograna sinn á kafi ofan í blómi”.
Það var Aron Elísson, 12 ára, sem að fann fiðrildið á tröppunum heima hjá sér. Frænka hans Íris Birgisdóttir tilkynnti Náttúrustofunni svo um það. Þess má til gamans geta að Íris og fjölskylda eru ákafega eftirtektarsöm og hafa m.a. tilkynnt bogkrabba, nátthegra, sefþvara og stöðvarkónga í gegnum tíðina og kunnum við þeim bestu þakkir fyrir. Slíkar skráningar eru ómetanlegar heimildir um náttúrufar á landinu.
Í kjölfar fundarins á Djúpavogi barst Náttúrustofunni önnur tilkynning um mjög stórt náttfiðrildi sem að öllum líkindum var einnig kóngasvarmi. Það fiðrildi sást undir rökkur í Kálfafellsdal í Suðursveit, utan við Gjábotnin en það var Skúli Benediktsson hreindýraleiðsögumaður og veiðimenn sem voru með honum í för sem að rákust á það. Þriðja tilkynningin um kóngasvarma kom svo frá Síðu í Vestur-Skaftafellssýslu fyrir fáeinum dögum. Við hvetjum alla til að hafa augun opin fyrir þessum fallegu gestum sem miðað við tilkynningar undanfarna daga vera víða á sveimi um þessar mundir.
Hægt er að lesa meira um Kóngasvarma á pödduvefnum
Meðfylgjandi ljósmyndir:
Hálfdán Helgi Helgason, Gréta Dröfn Þórðardóttir og Elínborg Sædís Pálsdóttir
Myndatexti: Lyngbúi. Latneska tegundaheitið pyramidalis vísar til pýramídalögun plöntunnar vegna krossstæðra blaðanna sem fara síminnkandi upp á við. Mynd: GÓ.
Lyngbúi (Ajuga pyramidalis) er sjaldgæf og friðuð planta hér á landi1. Samkvæmt skráningum fundarstaða í gagnagrunni Náttúrufræðistofnunar finnst lyngbúi einungis á nokkrum stöðum á Austurlandi, frá Njarðvík suður í Hellisfjörð2 og telst því meðal einkennisplantna Austurlands3. Auk þess eru fregnir af fundarstað í Vopnafirði skráðar í bók Helga Hallgrímssonar, Vallastjörnur.
Nokkrir þekktir fundarstaðir eru í Norðfirði, í hlíðinni fyrir ofan Neskaupstað og innan Fólkvangsins, en alaskalúpína (Lupinus nootkatensis) hefur í nokkurn tíma vaxið í nágrenni þeirra allra. Áhyggjur af áhrifum lúpínu á lyngbúann í Norðfirði eru ekki nýjar á nálinni, sbr. frétt í Morgunblaðinu frá 2004 þar sem Guðrún Áslaug Jónsdóttir, þá plöntuvistfræðingur hjá Náttúrustofunni, benti á að lúpínubreiðan fyrir ofan bæinn myndi án nokkurs vafa eyðileggja þann vaxtarstað innan nokkurra ára4.
Nú er svo komið að þrátt fyrir töluverða leit starfsfólks Náttúrustofunnar á öllum skráðum vaxtarstöðum lyngbúa í Norðfirði, hefur hann ekki fundist undanfarin ár. Myndin hér fyrir neðan sýnir einn fundarstaðinn, þar sem lyngbúi óx áður í lyngmóa.
Það eru því allar líkur á að lyngbúinn sé útdauður í Norðfirði, en það væri gleðiefni ef hægt væri að leiðrétta þær fregnir, ef einhver vita af lyngbúa innan fjarðarins. Við skorum því á náttúruskoðara að hafa augun opin og láta okkur vita ef þeir sjá lyngbúa á ferðum sínum.Tegundin getur þó enn glatt þau sem leggja leið sína í Hellisfjörð, þar sem syðsti skráði fundarstaður hennar er. Þar eru þó blikur á lofti þar sem lúpína er einnig tekin að breiðast út í Hellisfirði, en svæðið er nú friðlýst5. Umhverfisstofnun hefur lagt áherslu á að sporna við útbreiðslu framandi ágengra tegunda innan friðlýstra svæða6 sem eykur okkur bjartsýni um að þar eigi lyngbúinn möguleika á framhaldslífi.
1 Auglýsing um um friðun æðplantna, mosa og fléttna, nr. 1385 (18. nóvember 2021).
2 Hörður Kristinsson, Jón Baldur Hlíðberg og Þóra Ellen Þórhallsdóttir. 2018. Flóra Íslands. Blómplöntur og byrkningar. Vaka-Helgafell.
3 Helgi Hallgrímsson. 2017. Vallarstjörnur. Útgáfufélag Glettings.
4 Morgunblaðið. 2004. Lúpína ógnar friðlýstum plöntum.
5 Umhverfisstofnun. Án árs. Gerpissvæðið.
6 Umhverfisstofnun. 2012. Ágengar framandi tegundir.
Einn af skráðum fundarstöðum lyngbúa í Norðfirði, við leit starfsfólk Náttúrustofunnar þar í júní 2023. Mynd: GÓ.
Samtök náttúrustofu | kt 660802 2580 | netfang: sns (hjá) sns.is | Póstur skal berast til formanns hverju sinni