Árlegur fugladagur Náttúrustofu Austurlands og Ferðafélags Fjarðamanna var haldinn laugardaginn 3.maí 2025. Eins og vanalega var boðið upp á fuglaskoðun á tveimur stöðum, annars vegar við ós Norðfjarðarár kl 11:30 og við Andapollinn á Reyðarfirði kl 12:30.
Gott veður var á Norðfirði, sól og rúmlega 3°C en heldur mikil og köld hafgola. Á Reyðarfirði var blíðskapar veður, heiðskýrt og hiti um 6°C. Það var því svolítið svalt þó það væri bjartur og fallegur dagur á báðum stöðum.
Fjórir mættu við Andapollinn á Reyðarfirði en tólf á Norðfirði auk starfsfólks Náttúrustofunnar. Fjöldi tegunda sem sást að þessu sinni voru alls 26 á Reyðarfirði en 21 á Norðfirði. Eru það aðeins færri tegundir en oft áður á báðum stöðum.
Á Reyðarfirði sáust:bjargdúfa, skúfönd, grágæs, skógarþröstur, hettumáfur, hrossagaukur, heiðlóa, auðnutittlingur, maríuerla, stelkur, tjaldur, sandlóa, kría, sendlingur, hrafn, lóuþræll, tildra, hávella, æður, teista, stokkönd, fýll, heiðagæs, þúfutittlingur, silfurmáfur og rita
Á Norðfirði sáust: Álft, grágæs, rauðhöfði, æður, hávella, straumönd, toppönd, tjaldur, sandlóa, sendlingur, lóuþræll, tildra, stelkur, jaðrakan,hettumáfur, silfurmáfur, kría, þúfutittlingur, fýll, dúfa og stokkendur.
Sl. sumar tilkynnti Börkur Marinósson um merkta súlu sem fannst sjórekin í Hellisfirði. Við eftirgrennslan hjá fuglamerkingum Náttúrufræðistofnunar Íslands kom í ljós að súlan var ættuð frá Skrúði og var amk 24 ára þegar hún drapst. Hún var merkt sem fullorðinn fugl á hreiðri í Skrúði þann 7. júlí 2000, nokkrum árum áður en finnandinn fæddist.
Samtök náttúrustofu | kt 660802 2580 | netfang: sns (hjá) sns.is | Póstur skal berast til formanns hverju sinni