Sjórekin súla úr Skrúði

2024 daud sula

Sl. sumar tilkynnti Börkur Marinósson um merkta súlu sem fannst sjórekin í Hellisfirði. Við eftirgrennslan hjá fuglamerkingum Náttúrufræðistofnunar Íslands kom í ljós að súlan var ættuð frá Skrúði og var amk 24 ára þegar hún drapst. Hún var merkt sem fullorðinn fugl á hreiðri í Skrúði þann 7. júlí 2000, nokkrum árum áður en finnandinn fæddist.

Lúsugur refur úr Skagafirði

Í lok mars bárust Náttúrustofu Austurlands sýni úr ref sem skotinn var í Skagafirði í febrúar 2025. Tilkynnandi var Reimar Ásgeirsson uppstoppari á Egilsstöðum, en hann hafði veitt því athygli að feldur dýrsins virtist nokkuð appelsínugulur á kviði. Við nánari skoðun kom í ljós að feldurinn var alsettur smávöxnum skordýrum, bæði fullorðnum og ungviði sem virtust loða við hár dýrsins.

Starfsmaður Náttúrustofunnar myndaði dýrin undir smásjá og eftir samtal við Karl Skírnisson dýrafræðing á Keldum var talið líklegast að um væri að ræða hundasoglús (Linognathus setosus) sem er mjög sjaldgæf hérlendis og hefur ekki áður fundist á refum á Íslandi svo vitað sé.

Sýni hafa verið send á Keldur til frekari rannsókna en í samtali við Guðnýju Rut Pálsdóttur, sníkjudýrasérfræðing á Keldum sagði hún frá nýlegri grein þar sem m.a. er lýst aukinni tíðni soglúsamita eftir 2019 bæði í refum í Kanada og á Svalbarða. Einnig eru þar leiddar að því líkur að þær soglýs sem fundust á refum séu það frábrugðnar hundasoglús, bæði erfðafræðilega og útlitslega að þær geti tilheyrt annarri tegund. Það verður spennandi að heyra meira.

20250327 102352

refalusCrop

Tæknidagur fjölskyldunnar 2025

490051913 1369999714151264 2996993518939673466 nÍ byrjun apríl tók Náttúrustofa Austurlands að vanda þátt í tæknidegi fjölskyldunnar sem Verkmenntaskóli Austurlands stendur fyrir árlega. Dagurinn er hinn skemmtilegast þar sem fyrirtæki, stofnanir og félagasamtök kynna tækni, vísindi og verkmenntun. Dagskráin var lífleg og fjölbreytt þar sem m.a. Sprengju-Kata frá Háskóla Íslands sýndi listir sínar, nemendur úr 10. bekk Nesskóla sýndu afrakstur nýsköpunarkeppni sem þau tóku þátt í, Skriðuklaustur bauð í sýndarveruleika og stjarnan hann Doddi líffræðikennari krufið mink og ref með tilþrifum og komust færri að en vildu til að sjá.

Náttúrustofan kynnti rannsóknir á gæsum og hreindýrum með GPS tæki og landupplýsingar og þá var gestum leyft að spreyta sig á að greina hreindýr til kyns og aldurs af ljósmyndum. Nokkrir ungir þátttakendur sýndu þar snilldartakta og aldrei að vita nema þar séu komnir framtíðarstarfsmenn. Við þökkum Verkmenntaskólanum fyrir framtakið og gestum fyrir innlitið.

20250405 120820

489008794 633345452846452 4356859099189272967 n