Myndatexti: Lyngbúi. Latneska tegundaheitið pyramidalis vísar til pýramídalögun plöntunnar vegna krossstæðra blaðanna sem fara síminnkandi upp á við. Mynd: GÓ.
Lyngbúi (Ajuga pyramidalis) er sjaldgæf og friðuð planta hér á landi1. Samkvæmt skráningum fundarstaða í gagnagrunni Náttúrufræðistofnunar finnst lyngbúi einungis á nokkrum stöðum á Austurlandi, frá Njarðvík suður í Hellisfjörð2 og telst því meðal einkennisplantna Austurlands3. Auk þess eru fregnir af fundarstað í Vopnafirði skráðar í bók Helga Hallgrímssonar, Vallastjörnur.
Nokkrir þekktir fundarstaðir eru í Norðfirði, í hlíðinni fyrir ofan Neskaupstað og innan Fólkvangsins, en alaskalúpína (Lupinus nootkatensis) hefur í nokkurn tíma vaxið í nágrenni þeirra allra. Áhyggjur af áhrifum lúpínu á lyngbúann í Norðfirði eru ekki nýjar á nálinni, sbr. frétt í Morgunblaðinu frá 2004 þar sem Guðrún Áslaug Jónsdóttir, þá plöntuvistfræðingur hjá Náttúrustofunni, benti á að lúpínubreiðan fyrir ofan bæinn myndi án nokkurs vafa eyðileggja þann vaxtarstað innan nokkurra ára4.
Nú er svo komið að þrátt fyrir töluverða leit starfsfólks Náttúrustofunnar á öllum skráðum vaxtarstöðum lyngbúa í Norðfirði, hefur hann ekki fundist undanfarin ár. Myndin hér fyrir neðan sýnir einn fundarstaðinn, þar sem lyngbúi óx áður í lyngmóa.
Það eru því allar líkur á að lyngbúinn sé útdauður í Norðfirði, en það væri gleðiefni ef hægt væri að leiðrétta þær fregnir, ef einhver vita af lyngbúa innan fjarðarins. Við skorum því á náttúruskoðara að hafa augun opin og láta okkur vita ef þeir sjá lyngbúa á ferðum sínum.Tegundin getur þó enn glatt þau sem leggja leið sína í Hellisfjörð, þar sem syðsti skráði fundarstaður hennar er. Þar eru þó blikur á lofti þar sem lúpína er einnig tekin að breiðast út í Hellisfirði, en svæðið er nú friðlýst5. Umhverfisstofnun hefur lagt áherslu á að sporna við útbreiðslu framandi ágengra tegunda innan friðlýstra svæða6 sem eykur okkur bjartsýni um að þar eigi lyngbúinn möguleika á framhaldslífi.
1 Auglýsing um um friðun æðplantna, mosa og fléttna, nr. 1385 (18. nóvember 2021).
2 Hörður Kristinsson, Jón Baldur Hlíðberg og Þóra Ellen Þórhallsdóttir. 2018. Flóra Íslands. Blómplöntur og byrkningar. Vaka-Helgafell.
3 Helgi Hallgrímsson. 2017. Vallarstjörnur. Útgáfufélag Glettings.
4 Morgunblaðið. 2004. Lúpína ógnar friðlýstum plöntum.
5 Umhverfisstofnun. Án árs. Gerpissvæðið.
6 Umhverfisstofnun. 2012. Ágengar framandi tegundir.
Einn af skráðum fundarstöðum lyngbúa í Norðfirði, við leit starfsfólk Náttúrustofunnar þar í júní 2023. Mynd: GÓ.