Dagur íslenskrar náttúru var haldinn hátíðlegur á Náttúrugripasafninu í Neskaupstað sl. þriðjudag en deginum er ætlað að stuðlað að aukinni vitund um náttúru Íslands og mikilvægi þess að vernda hana og varðveita.
Starfsmenn Náttúrustofu Austurlands buðu skólakrökkum og almenningi að skoða vatnadýr sem safnað hafði verið úr Hólatjörnum og úr læk í nágrenninu. Bæði var hægt að skoða kynjaverur í víðsjá og með berum augum í fiskabúri þar sem syntu hornsíli, brunnklukkur og ræðarar og vöktu mikla lukku hjá gestum, ekki síst yngri þátttakendum.
Í víðsjánni gátu gestir skyggnst inn í hinn smáa heim vatnadýranna, þar sem margs konar smádýr eins og rykmýs- og bitmýslirfur komu í ljós og opnuðu augu gesta fyrir fjölbreytileikanum sem lifir í ferskvatni. Þá voru gestir hvattir til að túlka íslenska náttúru með hvers konar listrænni nálgun. Náttúrustofa Austurlands þakkar Menningarstofu Fjarðabyggðar fyrir skemmtilegt samstarf á þessum degi og öllum áhugasömu gestunum fyrir þátttökuna
Dregið var úr þátttakendum í lok dags og hlutu þrjú heppin glaðning frá Náttúrustofu og Menningarstofu, spil og frímiða á söfn Fjarðabyggðar.