Dásamleg útivera - skemmtilegt sumarstarf

IMG 9246

Við leitum að ábyrgum, jákvæðum og drífandi náttúrufræðingum eða náttúrufræðinemum til að taka þátt í sumarverkefnunum með okkur. M.a. að sinna mælingum á flæði gróðurhúsalofttegunda og aðstoða við rannsóknir á gróðri og fuglum. Viðvera á Austurlandi á meðan á ráðningu stendur er skilyrði og mikilvægt er að viðkomandi sé með bílpróf. Mögulegt er að starfið geti teygst fram á haustið ef það hentar viðkomandi.

Umsókn með ítarlegri ferilskrá, meðmælum og bréfi þar sem fram kemur hvers vegna sótt er um starfið sendist á kristin@na.is með fyrirsögninni: Sumarstarf 2025. Öllum umsóknum verður svarað þegar ákvörðun um ráðningu hefur verið tekin. Umsóknafrestur til 5.mars 2025.

Frekari upplýsingar veitir Kristín Ágústsdóttir forstöðumaður (kristin@na.is).

Náttúrufræðingur óskast

Náttúrufræðingar óskast 2025

Við leitum að öflugum náttúrufræðingum til að sinna rannsóknum á fuglum, gróðri sem og öðrum náttúrufarsrannsóknum. Störfin eru fjölbreytt og felast m.a. í mótun vöktunar og rannsókna bæði smærri og stærri verkefna, rannsóknum á vettvangi, greiningu gagna og skýrslugerð. Auk rannsókna á sérsviði mun viðkomandi taka þátt í öðrum verkefnum, bæði vettvangsvinnu og úrvinnslu.
Um er að ræða 100% starf eða eftir samkomulagi. Laun eru samkvæmt stofnanasamningi Náttúrustofu Austurlands við FÍN. Ráðið er tímabundið í eitt ár til reynslu en gert er ráð fyrir að um framtíðastarf sé að ræða. Búseta á Austurlandi er skilyrði. Gert er ráð fyrir að ráða í fleiri en eitt starf. Umsóknir geta gilt í tólf mánuði frá því að umsóknarfrestur rennur út.
Helstu verkefni og ábyrgð
Að hanna og stýra bæði stærri og smærri rannsóknum á fuglum eða gróðri, vistfræði og mögulega öðrum tilfallandi rannsóknum á náttúrufari. Starfið innifelur vinnu á vettvangi, úrvinnslu og skýrsluskrif.
Menntunar- og hæfniskröfur
Meistaragráða í náttúrufræðum, t.d á sviði fugla, gróðurs eða vistfræði
Færni í greiningu og framsetningu gagna, t.d. í landupplýsingakerfum, R eða sambærilegum forritum
Færni í skýrsluskrifum
Frumkvæði, sjálfstæði og faglegur metnaður
Færni í mannlegum samskiptum
Geta til þátttöku í lengri vettvangsferðum fjarri heimili
Vilji til að ganga í ólík störf
Mjög góð íslensku – og enskukunnátta nauðsynleg.
Ökupróf
Starfsreynsla á fagsviði er æskileg
Æskilegt er að viðkomandi geti hafið störf sem fyrst
Frekari upplýsingar veitir Kristín Ágústsdóttir forstöðumaður (kristin@na.is).
Umsókn með ferilskrá, meðmælum og bréfi þar sem fram kemur hvers vegna sótt er um starfið sendist á kristin@na.is með fyrirsögninni: Starfsumsókn 2025. Öllum umsóknum verður svarað þegar ákvörðun um ráðningu hefur verið tekin.

Sjá nánar á Alfreð

Ný vísindagrein um stafafuru

IMG 0355  steinadalur web

Nýlega birtist grein í vísindaritinu NeoBiota þar sem fjallað er um útbreiðslu og áhrif stafafuru (Pinus contorta) í Steinadal. Pawel Wasowicz, grasafræðingur hjá Náttúrufræðistofnun, leiddi rannsóknina og meðhöfundar eru Þóra Ellen Þórhallsdóttir, prófessor í grasafræði og Guðrún Óskarsdóttir, gróðurvistfræðingur hjá Náttúrustofunni.

Greinin fjallar um útbreiðslu stafafuru frá gróðursetningu hennar í Steinadal um miðja síðustu öld og breytingar á árunum 2010–2021. Fjöldi og þéttleiki trjáa jukust með veldisvexti, og útbreiðslusvæðið tífaldaðist á þessum ellefu árum. Stafafura hafði sáð sér í fjölbreytt gróðurlendi, og niðurstöður gróðurmælinga bentu til rýrnunar á fjölda og fjölbreytni æðplöntutegunda með tilkomu hennar. Rannsóknin leiðir í ljós að stafafura sýnir einkenni ágengra tegunda í Steinadal og gæti haft sambærileg áhrif víða á láglendi Íslands.

Hlekkur á grein