Náttúrustofa Austurlands lauk í vikunni merkingaátaki sumarsins á skúmum í Húsey á Héraðssandi.
Árangurinn var umfram væntingar, 11 gagnaritar endurheimtust af þeim 19 sem voru settir út í fyrra og 29 fóru út í ár.
Ólíkt síðustu tveimur árum þegar vöktun hófst, var varpið í miklum blóma og flest öll egg klakin eða við að klekjast. Skúmar á Íslandi hafa átt mjög undir högg að sækja og er skúmur ein þriggja hérlendra tegunda sem listaðar eru í bráðri hættu (CR) á válista Náttúrufræðistofnunnar Íslands.
Þetta átak er hluti alþjóðlegs verkefnis, SEATRACK , sem miðar að því að kortleggja útbreiðslu sjófugla úr varpbyggðum umhverfis Norður Atlantshaf.
Niðurstöður úr gagnaritunum eru enn óunnar en hrá-punktar gefa mynd um ferðalög skúma utan varptíma eins og þessi skúmur sem að fór frá Íslandi yfir í Norðursjó seinnipart ágúst, þaðan niður að Norðvesturströnd Afríku í október og svo yfir á Reykjaneshrygg áður í mars áður en hann snéri aftur í Húsey í lok apríl.
Árlegri vöktun á skúm í Húsey er þó ekki lokið enn því enn á eftir að fara að telja unga til að mæla varpárangur, sem gert verður um miðjan júlí. Það er hluti af verkefninu Vöktun Náttúruverndarsvæða sem er samstarfsverkefni Náttúrufræðistofnunar Íslands og náttúrustofa á landinu og var sett á laggirnar að frumkvæði umhverfis- og auðlindaráðuneytisins.
Allar athugasemdir um að skúmar séu vondir eða ljótir fuglar eru vinsamlegast afþakkaðar, þeir eru nefnilega æðislegir.
Myndir Anouk Fuhrman