Arnarfjörður á miðöldum

Starfsmenn Fornleifadeildar Náttúrustofu Vestfjarða hafa undanfarið unnið að uppgreftri á víkingaskála í landi Auðkúlu í Arnarfirði, í tengslum við rannsóknina Arnarfjörður á miðöldum sem fornleifadeild Náttúrustofu Vestfjarða hefur staðið að síðan árið 2011.

Verkefnið Arnarfjörður á Miðöldum er í ár unnið með styrk frá prófessorsembætti Jóns Sigurðssonar við  Háskóla Íslands og safni Jóns Sigurðssonar á Hrafnseyri. Rannsóknin hefur undanfarin ár einnig fengið styrk frá fornminjasjóð en það varð þó ekki þetta árið.

Á Auðkúlu hefur verið grafin skáli, járnvinnslusvæði, öskuhaugur bænhús og kirkjugarður og var járnvinnsla stunduð þar frá 900 en skálinn er mögulega frá byrjun 11. aldar. Skálinn er stór og gripir benda til mikillar efnis menningar. Rannsóknir fara einnig fram á Hrafnseyri í ár og á Litla Tjaldanesi en mjög spennandi niðurstöður borkjarnarannsókna er að vænta frá þeim jörðum sem greint verður frá síðar.

Starf forstöðumanns laust til umsóknar

Náttúrustofa Vestfjarða auglýsir þessa dagana starf forstöðumanns laust til umsóknar.

Umsóknarfrestur til 26. ágúst 2019

Forstöðumaður leiðir alhliða rannsóknar- og þjónustustofnun í náttúrufræðum á Vestfjörðum, með aðsetur í Bolungarvík og starfsstöðvar á Hólmavík og Patreksfirði. Verkefni Náttúrustofunnar varða fyrst og fremst öflun upplýsinga um náttúru og umhverfi Vestfjarða og úrvinnslu á þeim. Starfsmenn Náttúrustofu sinna fjölbreyttum verkefnum á sínu starfsssviði fyrir sveitarfélög, stofnanir eða einkaaðila. Auk þess sér Náttúrustofan um rekstur safna fyrir Bolungarvíkurkaupstað.

Helstu verkefni forstöðumanns:
Ábyrgð á daglegum rekstri og stjórnun mannauðs.
Leiðir rannsóknir á verkefnasviði Náttúrustofunnar.
Fjármál, áætlanagerð og innleiðing stefnumótunar í samstarfi við stjórn.
Ábyrgð á verkefnasamningum við sveitarfélög á Vestfjörðum.
Samskipti við stjórnvöld, aðildarsveitarfélög, önnur sveitarfélög á starfssvæðinu, samstarfsaðila og
viðskiptavini.

Menntunar og hæfniskröfur:
Háskólapróf í líffræði og framhaldsmenntun í dýrafræði, vistfræði eða sambærileg menntun.
Reynsla af sjálfstæðum rannsóknum og skýrslugerð.
Reynsla af styrkumsóknum og sjálfstæðum vinnubrögðum.
Stjórnunar- og rekstrarreynsla.
Hæfni í mannlegum samskiptum, frumkvæði og uppbyggilegt viðmót.
Hæfni í ræðu og riti á íslensku og ensku.

Náttúrustofan er rekin skv. lögum um Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofur nr. 60/1992 og er stofnunin rekin af sex sveitarfélögum á Vestfjörðum með stuðningi ríkisins. Náttúrustofa Vestfjarða er ein af átta náttúrustofum sem starfa víðsvegar um landið og hafa með sér formlegt samstarf innan SNS, samtökum náttúrustofa.

Allar nánari upplýsingar veitir Friðbjörg Matthíasdóttir, fridbjorg@nave.is, sími 898 2563

Umsóknir berist á netfangið fridbjorg@nave.is

Heildarþekja kerfilstegunda í landi Húsavíkur nú á við sjö knattspyrnuvelli

Á síðustu árum hefur Náttúrustofan kortlagt útbreiðslu kerfilstegunda í landi Húsavíkur, allt frá Bakka að Saltvík. Í landi Húsavíkur er bæði að finna skógar- og spánarkerfil en mun meira er þó af skógarkerfli. Skógarkerfill er hávaxin planta (0,3 – 1,5 m) af sveipjurtaætt. Hann var að öllum líkindum fluttur hingað til lands sem garðjurt á […]

Birdspot vefforrit

Birdspot (fuglastaður) er nýtt vefforrit búið til af Náttúrustofu Vestfjarða, í samvinnu við Birgi Erlendsson vefforritara með styrk frá Ranníba. Vefforritinu var formlega hleypt af stokkunum 5. ágúst og er aðgengilegt öllum tækjum sem eru nettengd.

Til að byrja með verður fuglastaður merktur með áberandi ímmiða á fimm stöðum í nágrenni Látrabjargs. Með því að slá inn birdspot.is í símanum og deila stöðu þinni muntu geta kynnt þér fuglalífið á þinni staðsetninu. Hægt er að fá helstu upplýsingar um tegundir fugla og nánari lýsingu á þeim á fjórum mismunandi tungumálum. Það er von okkar hjá Náttúrustofu Vestfjarða að birdspot.is muni gera fuglaskoðun einfaldari og aðgengilegri fyrir þá ferðamenn sem hafa áhuga á að kynna sér fuglalífið nánar, en ferðast ekki með fuglahandbók eða sjónauka.

Farðu á birdspot.is og kynntu þér nánar fuglana okkar!

Víxlnefur á Vatnsnesi

Víxlnefur. Mynd Einar Þorleifsson.

Hinn sjaldgæfi erlendi gestur víxlnefur sást í grennd við Ásbjarnarstaði á Vatnsnesi í Húnaþingi vestra í byrjun vikunnar. Þetta er í fjórða sinn sem fuglategundin sést á Íslandi en fyrir skömmu sáust nokkrir fuglar af þessari tegund við Höfn og í Skaftártungum.

Samtök náttúrustofu | Hafnarstétt 3 | 640 Húsavík | kt 660802 2580 | netfang: sns (hjá) sns.is